mánudagur, 25. mars 2013

Síðan hefur verið flutt...

...og þið finnið hana núna á:


Þar finnst líka allt eldra efnið og leit á að vera aðgengilegri.
Hlakka til að sjá ykkur þar :)

miðvikudagur, 21. nóvember 2012

Nr.2...

...ójá - þið lásuð rétt!  Nr.2 - ég ákvað að vera bara pínu villt og stökkva á einhvern glugga.  Hjördís var líka að spyrja hvar ég hefði fengið brún hreindýr og ég ákvað bara að sýna myndir af þeim núna, þannig að þið hafið tækifæri til þess að redda ykkur svona góssi ef þið viljið.

Í fyrsta lagi, þá er það blessaði tvöfaldi diskurinn úr Rúmfó.  Það er búið að reka Alvin og íkornana á braut, þeir eru fluttir í annað herbergi og lifa þar góðu lífi.  En þá þurfti náttúrulega að finna nýja íbúa á diskinn góða...


...og þau rakst ég á á Konukveldi í Pier seinasta fimmtudag, þetta er sennilegast einhverskonar hreindýraflensa sem að ég þjáist af um þessar myndir, en ég bara get ekki losað mig við þessa pest...


...en eru þau ekki fögur?...trén tvö eru í það minnsta 5 ára gömul og litla hreindýrið sem felur sig þarna á bakvið er úr Blómavali, frá því í fyrra... 


...en saman mynda þau fallega heild að mínu mati :)


...ég fékk líka fyrirspurn um hvernig ég skreyti gluggana og það er einmitt svona.  Best í heimi er að kaupa, að mínu mati, glærar seríur - sem sé glærar snúrur og hvítar perur.  Síðan finn ég einhverjar fallegar lengjur, urmull af þeim fæst t.d. í Blómavali, og ég vef síðan glæru seríunum utan um.  Mér finnst það alltaf vera fallegra en að festa bara seríu allan hringinn....


...eins er t.d. ekkert ljós í þessum stjörnum upprunalega, en ég tók bara seríuna og lét hana ná niður og þræddi innan í stjörnurnar líka... 


..hvítur, glitter en líka rustic gluggi :) 


...í öðrum fréttum þá ætla ég að monta mig af fallegu krúsinni minni...


....mér finnst hún algert yndi og er í miklu uppáhaldi...


...Sirka var einmitt að sýna myndir af henni í gær á Facebook, það eru til tvær stærðir, en þetta er minni stærðin sem að ég er með hér...


...já og litla uglan er frá Köben líka...


...og hvað segið þið annars gott :) ?

Búin að vera á hreindýraveiðum?  
Hefur það borið árangur?

þriðjudagur, 20. nóvember 2012

Nr. 5....

...er næsti pósturinn af jóladagatalinu, eða kannski frekar "niðurtalningu í desember-talinu".

Myndin sem vakti forvitni er þessi hér...


Hvar skyldi hún vera tekin?

Júbb, í hjónaherbergi hjúanna.  Það er nú ekki mikið af skrauti þar inni, nánast ekki neitt.


...en ég átti þennan hérna krans, og hef átt í mörg ár.
Venjulega hefur hann staðið í stofunni en ég flutti hann inn í svefnherbergi og hengdi upp á snagabrettið mitt þar......og þar hangir hann nú, ásamt tveimur englavængjum og skírnarkjólnum mínum (sem er líka skírnarkjóllinn sem litli kallinn var skírður í...


...vængirnir voru keyptir í Köben áður en unga daman fæddist, sem sé fyrir rúmum 7 árum og hafa fylgt okkur í gegnum árin, sem skraut í fyrsta herberginu hennar...


....og líka sem "props" í myndatökum þegar að hún var lítil :)


...kjóllinn á mömmunni og líka á litla kallinum......og sama með kransinn, hann hefur hangið í eldhúsinu og í stofunni, sem segir manni bara að það er um að gera að færa hlutina til.  Það er gaman að breyta til en nota bara það sem maður á til...

...til þess að hengja upp kransinn, þá tók ég stóra perlufesti sem að ég átti til, og tók hana tvöfalda utan um kransinn til þess að festa hann upp.  Einföld leið til þess að skreyta hann í raun pínu í leiðinni, 
og gera hann svona "dömulegri".  
Aftur, bara notað það sem til var hérna heima en hugsað út fyrir kassann :) 


..krossinn sem hangir þarna er líka orðinn frekar gamall, en ég fékk hann um fermingu frá kaþólskum presti sem starfaði í klaustrinu í Hafnarfirði.  

Presturinn kom nefnilega stundum í heimsókn heim til pabba í gamla daga.  Mér er það alltaf minnisstætt þegar að hann kom einu sinni í heimsókn, og það var fegurðarsamkeppni í sjónvarpinu.  Munið í þá daga sem fólk horfði á svoleiðis ;)  Gelgjan ég lá í sófanum með sæng yfir mér og í stuttermabol, kom þá blessaður presturinn óvænt og settist inn í stofu og sat ALLA keppnina.  Unglingagelgjusprengjan gat náttúrulega ómögulega staðið upp og labbað inn í herbergi á brókinni fyrir framan prestinn, og lá ég því soðin undir sæng allan tímann.  Paaahhhh, en ég get ekki annað en brosað og munað eftir þessu í hvert sinn og ég sé krossinn :)


...þetta fallega hjarta fékk ég síðan frá yndislegu vinum okkar á Akureyri, og mér þykir svo vænt um það...


...og svona er þá gluggi nr.5!

Það heyrist lítið í ykkur, er ég að drepa ykkur úr leiðindunum með gluggunum? :) 


Þið eruð kannski ekkert komnar í stuð fyrir jólaglugga? 


mánudagur, 19. nóvember 2012

19.nóvember 1994...

...og síðan þá eru liðin 18 ár!  

Það þýðir að 18 ár eru liðin síðan að ég og minn heittelskaði hófum okkar samband.  
Það þýðir líka að ég er búin að vera með honum hálfa ævina :)  
Heppin ég!

Svona vorum við nú mikil kríli...


...bara pínu peð...


...endilega gefið ykkur tíma til þess að dáðst að skótauinu mínu (og hárinu á bóndanum), og btw þá elskaði ég þennan kjól - hann var næstum eins og kjóll sem að Monica í Friends var í í fyrsta þættinum......farið útlendis...


...heimsóttum hina yndislegu Santorini...


...giftum okkur 2005...


...og áttum þá von á frumburðinum (ég var komin 3 mánuði á leið)...


...þannig er það nú.  18 ár, ein íbúð, eitt hús, tvö börn og tveir hundar, og fleiri herbergisbreytingar en hægt er að kasta tölu á ;)

Ég elska þig krúttið mitt ♥